FYRSTI HLUTI
Umræðan um verk Hannesar Lárussonar Fallegasta bók í heimi á sýningunni “KODDU” hefur líklega ekki farið framhjá neinum. Ég hef rennt í gegnum nokkra pístla sem taka á þessu umdeilda verki. Annarsvega finnst mér gagnrýnin umfjöllun Kristins E. Hrafnsonar Tortímandinn á grein Hlyns Helgasonar Umbrot og myndskreyti koma með ágætt innslag, sérstaklega er varðar bókformið sem listaverk. Og hinsvegar finnst mér grein Hauks Más Helgasonar Flora koddu einnig ágæt nálgun á verkið sem hann tengir við ímyndasköpun íslendinga. Í greininni segir Haukur segir meðal annars:
Myndir listamannsins eru hans eigin, en þessi gripur, sem vara á markaði, er samofinn úr öllum þeim grunnþáttum ríkjandi hugmyndafræði sem sýningin Koddu beinist að. Ef sú hugmyndafræði væri aðeins hugmyndafræði bankaauglýsinga þyrfti ekki 40 myndlistarmenn til að ráðast að henni – þar blasir skotmarkið við. Það sem er erfiðara að koma auga á og áhættusamara að ráðast gegn, en þeim mun mikilvægara, er hin hlið hugmyndafræðinnar: birtingarmyndirnar sem eru einmitt ekki banki, ekki rukkari og ekki flatskjár – þau sakleysislegu orð og þær sakleysislegu myndir sem er beitt til að sameina okkur og láta í veðri vaka, þvert á staðreyndir, að við, „þjóðin“, séum á einhvern hátt öll á sama báti. Ef kennslubókin Hugmyndafræðileg kúgun fyrir byrjendur væri til, þá væri trixið „skírskotun til náttúru“ kennt í fyrstu málsgrein fyrsta kafla.
áfram segir hann:
Annars vegar fínlegar teikningar sem unnar eru af vandvirkni og fela í sér dásömun, laða fram tign þeirrar lifandi náttúru sem mynduð er, dásömun sem er síðan sjálf vegsömuð af útgefendum og aðstandendum vörunnar, hins útgefna rits, með öllum umbúnaði þess og verðmiðanum sjálfum. Hins vegar náttúra eftir að vera slátrað, unnin, breytt í matvæli og matvælunum svo í sorp. Þetta er sama náttúra. Svona fyrir og eftir mynd, eins og fylgir megrunarkúrum. Hvort sem er spægipylsa eða kartöflumús – allur er þessi matur upprunninn í sömu grösum og myndirnar í bókinni birta.
Þegar sýningunni “KODDU” var upphafleg aflýst af hálfu aðstenda á Listasafni Árnesinga þá gerði ég mér grein fyrir því að þegar hún yrði loksins sett upp þá mundi hún valda fjaðrafoki og hneykslan. Enda er Hannes gjarnan þekktur fyrir að valda fjaðrafoki þar sem hann kemur við og það mætti jafnvel ganga svo langt að áætla að sem listamaður þrífist hann eimitt best þegar menningarsamfélgið fussar og blæs stífum mótvindi og fúkyrðum á verk hans.
Sjálf fór ég á sýninguna og sá ég umdeilda verkið Fallegasta bók í heimi en ég staldraði nú ekki lengi við það. Um leið og ég gékk inní Nýló varð mér ljóst að þessi sýning hafði sterkt hneykslunnar gildi (e. shock value) sem var/er um leið hluti af tilgangi hennar sem samfélagsleg ádeila. Sýningin skilaði líklega eimitt því sem aðstandendur hennar vildu og voru/eru viðbrögðin eftir því.
Sem áhorfandi þá fannst mér sýningin varpa ljósi á að íslendingum sé ekkert heilagt í mjög víðu og altæku samhengi. Nútímasamfélagið þarf að endurskoða, endurheimta og endurskilgreina hugtakið íslensk þjóð. Enda tala athafnir íslendinga sínu máli og sýna rétta andlit íslendingsins sem er ekki álitlegt og síst af öllu blómlegt. Umræðan fær mig hinsvegar til hugsa um bókformið sem listaverk og um leið rýni ég í þær bækur sem að mínu mati eru listaverk en eru ekki gefin út sem slík (skráning bóka og listaverka greinir á um hvort sé um að ræða bók eða listaverk s.kv. Guðmundi Oddi Magnússonar aka Goddi). Bók sem að mínu mati ætti heima í flokki listaverka er skáldsaga Sigurðar Guðmundssonar Tabúla Rasa og mér þætti miður ef hún yrði notuð sem eldivið þó að hún sé unnin út trjáum.
ANNAR HLUTI
Eða réttara sagt er þessi pístill um sjálfa sýninguna “KODDU” þar sem finna má verk Hannesar Lárussonar Fallegasta bók í heimi. En sú ofstopafulla umræða sem fylgt hefur verkinu hefur aðskilið það frá því samhengi og þeirri hugmyndafræði sem sýningin og væntanlega verkið sjálft var unnið útfrá. Ekki misskilja mig, umræðan um sæmdarrétt og höfundaréttarlög listamanna er þörf og tímbær sérstaklega þegar tekið er mið af áhrifum internetsins, en það er mitt mat að umfjöllunin sem Fallegasta bók í heimi hefur fengið hefur dregið athyglinni frá ágæti sýningarinnar sjálfrar.
Í ítarlegri sýningarskrá “KODDU” geta áhorfendur lesið sér til um tilurð og myndun á þeim hugmyndaramma sem að listamenn sýningarinnar unnu eftir. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Meginmarkmið okkar er að fjalla um tengsl hugmyndafræði og virkni myndmáls/tungumáls/tákngervinga sem eiga sér misdjúpar rætur í þjóðarsálinni á tímum góðærisins og hrunsins. Sýningin leggur áherlsu á ný og beinskeytt verk og gefur tilefni til umræðu um þjóðlega fagurfræði – umræðu sem við viljum flétta inní íslenska menningarpólítík með því að fjalla um hvernig markaðurinn, ríkið og akademían hafa áhrif á framgöngu mála.
Svo virðist sem að þessi yfirlýsing hafi með einum eða öðrum hætti gleymst á meðal áhorfenda/ lesenda/ skrifenda/ áhugmanna og fjandmanna sýningarinnar og þá sérstaklega í sambandi við umrædda verkið. Eins og ég sagði í fyrri og mun léttvægari umfjöllun minni á þessari “KODDU”, að þegar henni var upphaflega aflýst að hálfu aðstandenda Listasafns Árnesinga þá gerði ég mér grein fyrir því að þegar hún yrði loksins sett upp þá mundi hún valda fjaðrafoki og hneykslan. Sýningin hefur sterkt hneykslunnar gildi (e. shock value) sem er um leið hluti af tilgangi hennar sem samfélagleg ádeila. Þetta ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart.
Á sýningunni má finna ýmis verk sem eru bæði áhrifamikil og gera hugmyndafræði sýningarinnar góð skil. Þar má nefna:
- Hnakkar gjörningur eftir Ásmund Ásmundson
- Sæll/Happy verk Baldvins Einarssonar
- Black(s)out verk Erling T.V. Klingenberg,
- X-Performance gjörningur eftir Bryndísi Björnsdóttur
- Cultural Amnesia eftir Huginn Þór Arason og Unnar Örn Auðarson
- Guð blessi Ísland Ameríku / Guð blessi Ameriku Ísland eftir Hlyn Hallson
- Brown is the color of poo eftir Ósk Vilhjálmsdóttur
- Harpan brennur vídeóverk eftir Ragnar Kjartansson
- Trampólín ljósmynd eftir Ingvar Högna Ragnarsson
- Lady of the mountain ljósmynd eftir Hörð Sveinsson og Hörð Kristbjörnsson.
Verkin tala sínu máli með augljósum og oft áhrifaríkum hætti, þau fanga þá þjóðarímynd og þá brenglun sem hefur einkennt hugarfar og ímyndasköpun íslendinga, já líka mitt og þitt hugarfar. Það áttu hreinlega allir að verða Inspired by Iceland.
Svo að ég snúi mér aðeins aftur að Hannesi þá einkennist framkoma hans og röksemdir eimitt af þessari sömu mikilmennsku og sjá mátti hjá hinum þekktu útrásarvíkingum eða ádeiluefni sýningarinnar. Hann persónulega hleður Fallegustu bók í heimi gildismat á kostnað sýningarinnar, en ekki hefur mikið heyrst frá samstarfmönnum Hannesar um þetta mál. Hannes lýsir m.a. yfir í viðtalsætti Kastljóssins þann 30. apríl 2011 að verkið væri svo umdeilt einfaldlega því að það væri svo mikið kjöt á beinunum. Með öðrum orðum þá er verkið að hans mati mikið merkis verk. Í sama viðtali líkir hann bókakaup með undarlegum hætti við kaup á pönnu og segir “það segir mér enginn hvað ég á að elda á pönnunni”. Síður en ekki síst svarar hann ábendingu þáttastjórnanda um yfirlýsingu Eggert Péturssonar um notkun hans á íslenskri jurtaflóru sem stafróf í verkum sínum með því að segja “á hann þá bara alla flóru Íslands?” Þetta viðtal talar sínu máli, fagmennska og virðing Hannesar er lítil sem enginn og speglar með óyggjandi hætti framkomu og mikilmennsku útrásarvíkinganna að mínu mati. Umfjöllunin um Fallegustu bók í heimi hefur því miður snúist upp í einhverskonar leikþátt eða hanaat á milli tveggja listamanna.
Eins og flestum er kunnugt þá tók Nýlistasafnið umdeilda verkið niður og mögum þótti það miður. Ég er ein af þeim. Eftir að hafa rætt málið við kunningakonu mína var ég henni sammála, en hún vildi meina að verkið hefði átt að standa í Nýló þrátt fyrir ákæru meiningar forlagsins. Með þessum hætti hefði brýn umræða um sæmdar- og höfundarétt listamanna eimitt fengið einhverskonar niðurstöðu þá hjá dómstólum.
Eins og svo oft áður vill ég hvetja fólk til að fara á “KODDU” og skoða þau ágætu verk sem eru til sýnis. Sérstaklega vill ég benda þeim sem mynda með sér óþol gagnvart allri umræðu sem er ekki stytt niður 15 setninga úrdrátt að gera sér ferð niðrá Nýlistasafn og í Grandargarð 2.